Á 20. öld kom í ljós að helíum leikur lykilhlutverk í geislaslögum sefíta. Í samdrætti, þegar birtan er í lágmarki, varðveitist orka í formi tvíjónaðs helíums. Í slíku ástandi er gasið ógagnsærra en ella, það gleypir meira af innri ljósorku og hitnar. Þá þenst stjarnan út. Við útþensluna kólnar gasið, helíumjónir endursameinast, stjarnan verður gagnsærri og losar meiri geislun. Aðdráttarkrafturinn verður síðan útþenslunni yfirsterkari og stjarnan tekur að dragast saman. Síðan endurtekur ferlið sig aftur og aftur.
Sveiflutími δ Cep er ~5,366 dagar. Birtusveifla stjörnunnar á mynd 2a er dreginn fram af gögnum AAVSO (2021). Rauðir hringir sýna hvar í sveiflunni stjarnan var stödd þegar tvær litrófsmælingar voru gerðar haustið 2019. Annars vegar var stjarnan að ljúka útþenslu og hafði því dofnað, hins vegar var hún í samdrætti og að stefna í hámarksbirtustyrk. δ Cep er talin um 4,5-5,7 sólarmassar og yfirborðshiti á bilinu 5500-6600 K. Samhliða birtusveiflunni breytist litróf stjörnunnar, úr F5 (í hámarki) í G2 (í lágmarki) en það er sami litrófsflokkur og sólin tilheyrir. Meðalljósafl δ Cep er ~2000 falt sólar.
Á mynd 3 er litróf δ Cep (rauð lína), sem var myndað 2. september 2019 þegar stjarnan var að ná lágmarksbirtu (í samdrætti), borið saman við litrófið frá 13. nóvember (blá lína) sama ár, þegar hún var að ná hámarksbirtu (í útþenslu). Samfellan hefur áþekka breiðlögun en í útþenslustiginu geislar stjarnan meira frá sér og bylgjusviðið frá 3700 til 6563 Ångström rís af meiri styrk en þegar stjarnan er í samdrætti. Ísoglínur vetnis (Balmers-línurnar) verða sterkari í útþenslustiginu en eru fremur grunnar þegar stjarnan er í samdrætti.