Árið 2016 var tilkynnt um reikistjörnu á braut um stjörnuna GSC 3261:1703 í Kassíópeiu (einnig auðkennd WASP 93). Vísbendingar höfðu fyrst náðst með WASP-sjónaukanum (Wide Angle Search for Planets) á La Palma árið 2012, og eftirgrennslan með litrófsgreini og ljósmælingum staðfesti reikistjörnuna. Móðurstjarnan er fremur björt og því er hægt að nema þvergöngur reikistjörnunnar með sjónaukum af þeirri stærð sem stjörnuáhugamenn nota. WASP 93 er um 2° 36’ sunnan við zeta Cassiopeiae (ζ Cas). Vefsíða EPE listar upp helstu stika um fjarreikistjörnuna (úr frumheimildum). Fjarlægð er talin 815 ± 195 ljósár. Stjarnan er ~1,3 sólarmassar, reikistjarnan er ~1,6 Júpítermassi og brautartími 2,7325321 dagar. Um er að ræða dæmigerðan heitan Júpíterrisa.

Staðsetningarkort fyrir WASP-93 b (Stellarium) – Location map of WASP-93 b (Stellarium)

Ljósmældar þvergöngur - Observed transits

Höfundur hefur tvívegis fylgst með þvergöngu WASP-93 b, fyrst þann 3. janúar 2017 og næst 27. desember sama ár. Í fyrri athugun tókust mælingar ágætlega, þrátt fyrir vafasamar aðstæður og fylgdu niðurstöðurnar spálíkaninu vel eftir. Þann 27. desember 2017 tókust tökur vel en nokkur strekkingsvindur var þetta kvöld. Myndir 2a og 3a sýna mæld birtugildi móðurstjörnunnar WASP-93 þegar fjarreikistjarnan var í þvergöngu, a) 3. janúar 2017 og b) 27. des. 2017. Á þverás er tími en birtubreyting á lóðás.

Myndir 2b og 3b sýna skinhlutfall, þ. e. ljósdeyfinguna sem gefur vísbendingu um hve mikið fjarreikistjarnan skyggir á móðurstjörnuna í á meðan þvergöngunum stóð. Með reiknitóli TRESCA draga niðurstöðurnar þann 3. janúar 2017 upp reikistjörnu með ~37% stærri geisla og 9% minni brautarhalla en viðurkennt gildi. Niðurstöðurnar þann 27. des. 2017 var sú að þá mældist geisli ~35% stærri en viðurkennt gildi og 6% meiri brautarhalla en viðurkennt gildi. Myndirnar voru fengnar á vefsvæði TRESCA og aðlagaðar að þessari síðu.

Mynd/Fig. 2a. Þverganga 3. janúar 2017.- Based on TRESCA database.

Mynd/Fig. 2b. Skinhlutfall 3. janúar 2017.- Based on TRESCA database.

Mynd/Fig. 3a. Þverganga 27. desember 2017.- Based on TRESCA database.

Mynd/Fig. 3b. Skinhlutfall 27. desember 2017.- Based on TRESCA database.

Birtuferill WASP-93 b er óvenju bogadreginn samanborið við ljósferla dæmigerðra þvergangna. Atburðarásin er sú að ljósstyrkur fellur jafnt og þétt að miðri þvergöngu og eykst með sama hætti uns henni lýkur. Þetta er túlkað sem að brautarhalli reikistjörnunnar sé talsverður (81°), frá jörðu séð og að jaðarhúmun móðurstjörnu hafi töluverð áhrfi á meðan þvergöngunni stendur.

Í fyrri athugun var notaður 30 cm sjónauki, en 40 cm sjónauki í seinna skiptið. Búist  var við skýrari niðurstöðum í 40 cm sjónaukanum en gamla 30 cm. Raunin varð ekki sú, þ.e. dreifing mæligilda var ekki minni í það sinn. Því hljóta aðstæður þetta kvöld að hafa ráðið einhverju um hvernig til tókst. Fyrri mælingin var notuð í grein Gajdoš o.fl. (2019) þar sem fjallað er m.a. um þessa fjarreikistjörnu.

Ýtarlegri upplýsingar um mælingarnar á WASP-93 b eru í samantektum um stjörnuathuganir áranna 2016-17 og 2017-18 en eru dregnar saman í eina grein hér.

WASP-93 b orbits GSC 3261:1703 located 2° 36’ south of zeta Cassiopeiae (ζ Cas). Its discovery was confirmed in 2016. Observations of its transits were implemented by the author on January 3, and December 27, 2017, from the Nes observatory. One goal of the measurements was to examine the quality of data, obtained with a 40 cm mirror and compare it to data collected with a 30 cm mirror. Despite fair results, lower values of residuals were not obtained from the data, collected by the larger mirror on this occasion.

WASP-93 b á vefsvæði TRESCA, Exoplanet Transit Database (ETD).

WASP-93 b at TRESCA website, Exoplanet Transit Database (ETD).

WASP-93 b á vefsvæði The Extrasolar Planets Encyclopaedia (EPE).

WASP-93 b at the Extrasolar Planets Encyclopaedia (EPE).

Sjónrænar þrívíðar upplýsingar um WASP-93 b á vefsvæði NASA, Exoplanet Exploration.

Visual  3D information about WASP-93 b at NASA website, Exoplanet Exploration.