Þessi síða er helguð innbyrðis samanburði á litrófi tvístirna. Athuganir eru gerðar fyrst og fremst til að skoða litrófssamfellur og greina gleypnilínur, sem eiga uppruna til ákveðinna frumefna í lofthjúpi (ljóshvolfi) þeirra.
This page is devoted to the spectrum of double stars. The observations were implemented primarily to examine the spectral continuum of and identify absorption lines that originate from certain elements in their atmosphere (photosphere).
Tvístirnið Albireo (K3 og Be stjarna)
Albireo (mynd 1) er þekkt tvístirni (β CygA hnit 19 30 43.3 +27 57 34.8, sýndarbst. 3,18; β CygB hnit 19 30 43.3 +27 57 54, sýndarbst. 5,11, fjarlægð ~415 ljósár) og einna þekktast fyrir sterk litaskil stjarnanna. Hornbilið á milli þeirra er 35 bogasekúndur. Í sjónskoðun er β CygA gulleit en β CygB, blá. Þessi skýri litamunur (mynd 2) gerir Albireo eitt af fallegustu tvístirnum í almennri sjónskoðun. Nýlegar mælingar með Gaia-gervitunglinu benda til þess að parið sé ólíklega reyndartvístirni. Eiginhreyfing og hliðrun vísa til þess að fjarlægð á milli þeirra sé 20 parsek (65 ljósár). Mögulegt er engu að síður að þær hafi tilheyrt sömu þyrpingu eða stjörnufélagi sem búið er að leysast upp. β CygA er reyndartvístirni og er fylgistjarnan (Ac) í 0,4″ fjarlægð. Sagt hefur verið frá annarri fylgistjörnu l (Ab) en mjög óljóst er með tilvist hennar. Litvísir β CygA er K2 II, yfirborðshiti 4270 K og reyndarbst. -2,45. β CygB, sem er Be-stjarna, hefur litvísinn B8 V og yfirborðshita ~13000 K. Þessi mikli hitamunur yfirborðs endurspeglast ekki einungis af litamun í sjónskoðun eða á ljósmyndum, heldur staðfestist í litrófi stjarnanna.
Leitarkort af Albireo (í hring) og merkið Svanurinn (Stellarium). — Location map of Albireo (circle) and the constellation Cygnus (Stellarium).
Mynd/Fig. 2. Tvístirnið Albireo, β CygA er bjartari stjarnan og β CygB er sú bláa. – The optical double star Albireo (β Cygni). The brighter star is β CygA and the blue colored β CygB.
Litróf beggja er á mynd 3, en það var myndað 29. september 2019, auk þess greypt mynd af tvístirninu (frá 21. nóv. 2012, tekin með 30 cm sjónauka og Nikon D5000). Rauða rófið er litrófssamfella β CygA sem er mun „kaldari“ en samfella β CygB, (blá lína). Í því sjást m.a. magnesín (Mg) og títanoxíð (TiO). Vetnislínur (Balmers-röðin) í rófi β CygB eru skarpar en einnig sjást línur hlutlauss helíns (He I). Ein slík lína er ákvörðuð, við 4471 Ångström. Stjörnur í litrófsflokki B eru mjög heitar og fara þá He línur að birtast og þær styrkjast frá B9 til B2 en fara þá aftur að dofna. Litaborðarnir neðst sýna styrkleikann í sýnilega rófinu og að styrkur β CygA liggur í rauða hluta rófsins en β CygB.
Mynd/Fig. 3. Samanburður litrófs β CygA (rauð lína, bjartari stjarnan) og β CygB (blá lína). Innskotsmyndin sýnir tvístirnið og litamunurinn er auðséður. – Comparison of the spectrum of the optical double star Albireo (β Cygni). The spectral type of the amber colored β CygA (red line, brighter star) is K2 II but the blue colored β CygB (blue line) is B8 V.
Tvístirnið 61A og 61B Cygni (BY Dra og blossastjarna)
61 Cygni (hnit 21 06 53,95 +38 44 57,9, sýndarbst. 61A 5,21, 61B 6,03, fjarlægð 11,4 ljósár) er sögufrægt tvístirni (mynd 1) enda fyrsta stjarnan sem að mæld var á sólmiðjuhliðrun og í framhaldinu var hægt að ákvarða fjarlægðina til. Það tókst þýska stjörnufræðingnum Friedrich Bessel (1784-1846) að gera, árið 1838. Höfundur hefur fyrr greint frá mælingu á fjarlægð þessarar stjörnu og mati á reyndarbirtu, auk þess sem sagt hefur verið frá henni á vefsetri Almanaks Háskóla Íslands.
Tvístirnið 61 Cygni mynda tvær rauðar dvergstjörnur sem eru á meginröð (mynd 2). Báðar eru breytistjörnur; 61A vegna sólbletta- og lithvolfsvirkni samtengdri möndulsnúningi en 61B er blossastjarna. Stjörnurnar eru smærri, kaldari og daufari en sólin og ljósaflið 0,15 (61A) og 0,08 (61B) samanborið við hana.
Leitarkort af 61 Cygni (í hring) og merkið Svanurinn (Stellarium). — Location map of 61 Cygni (circle) and the constellation Cygnus (Stellarium).
Mynd/Fig. 2. Tvístirnið 61 Cygni, árið 2012. 61 CygA er bjartari stjarnan og 61CygB er þar undir. – The binary 61 Cygni in 2012. The brighter star is 61 CygA and the lower is 61 CygB.
Á mynd 3 er litróf beggja stjarna borið saman, af myndum sem voru teknar 25. ágúst 2019. Rauða samfellan er litróf 61A en blátt er róf 61B. Litrófsamfellurnar eru keimlíkar hvað varðar gleypni og sömu línur nokkurra málma birtast hjá báðum stjörnunum. Mest áberandi eru jónað kalín (Ca), járn (Fe), magnesín (Mg), kóbolt (Co), natrín (Na), títan (Ti) og títanoxíð (TiO). Auk þess eru sjáanlegar nokkrar vetnislínur (Hα, Hβ, Hγ) Balmer-raðarinnar en þær eru lítið áberandi. Ofan við 7000 Å er gleypni lofthjúps jarðar og lág skammtanýtni myndflögu í IR-sviðinu farin að segja til sín.
Samfellurnar liggja þó ekki saman og er styrkleiki rauða rófsins (61A) nokkuð meiri frá 4000-6600 Å. Það skýrist af hærri yfirborðshita 61A Cygni (~4400 K) en 61B Cygni (~4000 K). Þetta er í samræmi við það sem fram kemur í mælingum sem eru gerðar í UBV kerfinu (Johnson-Morgan eða Johnson kerfi), þegar notaðar eru litsíur, t.d. með B fyrir blátt litsvið og V fyrir grænt (visual) litsvið. Litvísar í kerfinu fást með frádrætti B–V og gefa til kynna yfirborðshita stjarna. Í því kerfi, eins og í litrófi þeirra, kemur í ljós hærri yfirborðshiti 61A.
Mynd/Fig. 3. a) Tvístirnið 61 Cygni, mynd tekin 25. ágúst 2019. b) Litróf 61A (rauð lína) og 61B Cygni (blá lína), sem eru flokkaðar K5V og K7V stjörnur. — a) The actual binary 61 Cygni, image captured on August 25, 2019. b) 61A (red spectrum) and 61B Cygni (blue spectrum) are classified as K5V and K7V stars, respectively.
Tvístirnið ζ Lyrae
Nasr Alwaki , betur þekkt sem Zeta Lyrae (ζ Lyr, hnit 18 44 46,36 +37 36 18,4, sýndarbst. ζ1 Lyr 4,37, ζ2 Lyr 5,74, fjarlægð 156 og 158 ljósár) er sýndartvístirni í Hörpunni (mynd 1) og er hornbilið á milli stjarnanna 44 bogasekúndur. Þær sjást vel í handkíki og sjónskoðun sýnir báðar hvítar en með svolitlum birtumun. Nokkrir stjörnuskoðarar segja litamun á stjörnunum, út í gula og bláa, en líklega ræður því að við sjáum ekki öll liti eins.
Campbell og Curtis kynntu árið 1905 að ζ1 Lyr er litrófstvístirni og að umferðartími þess sé rúmir fjórir dagar. ζ2 Lyr er stök stjarna. Sú hefur afar hraðan möndusnúning og lögun pólflatrar snúðvölu
Leitarkort af ζ Lyrae og merkið Harpan (Stellarium). — Location map of ζ Lyrae and the constellation Lyra (Stellarium).
Á mynd 2 er litróf beggja stjarna borið saman, af myndum sem voru teknar 2. október 2019. Bláa samfellan er litróf ζ1 Lyr en rautt er róf ζ2 Lyr. Litrófsamfellurnar eru keimlíkar hvað varðar gleypni og sömu Balmerslínur (vetnislínur, Hα, Hβ, Hγ) birtast hjá báðum stjörnunum. Ofan við 7000 Å er gleypni lofthjúps jarðar og lág skammtanýtni myndflögu í IR-sviðinu farin að segja til sín.
Mynd/Fig. 2. Samanburður litrófs sýndartvístirnisins ζ Lyrae í Hörpunni. ζ1 Lyr (blá lína, bjartari stjarnan) og ζ2 Lyr (rauð lína). – Comparison of the spectrum of the optical double star Nasr Alwaki (ζ Lyrae). The spectral type of the white colored ζ1 Lyr (blue line, brighter star) is kA5hF0mF2 and ζ2 Lyr (red line) is F0 IVn.