Á mynd 3 er litróf beggja stjarna borið saman, af myndum sem voru teknar 25. ágúst 2019. Rauða samfellan er litróf 61A en blátt er róf 61B. Litrófsamfellurnar eru keimlíkar hvað varðar gleypni og sömu línur nokkurra málma birtast hjá báðum stjörnunum. Mest áberandi eru jónað kalín (Ca), járn (Fe), magnesín (Mg), kóbolt (Co), natrín (Na), títan (Ti) og títanoxíð (TiO). Auk þess eru sjáanlegar nokkrar vetnislínur (Hα, Hβ, Hγ) Balmer-raðarinnar en þær eru lítið áberandi. Ofan við 7000 Å er gleypni lofthjúps jarðar og lág skammtanýtni myndflögu í IR-sviðinu farin að segja til sín.
Samfellurnar liggja þó ekki saman og er styrkleiki rauða rófsins (61A) nokkuð meiri frá 4000-6600 Å. Það skýrist af hærri yfirborðshita 61A Cygni (~4400 K) en 61B Cygni (~4000 K). Þetta er í samræmi við það sem fram kemur í mælingum sem eru gerðar í UBV kerfinu (Johnson-Morgan eða Johnson kerfi), þegar notaðar eru litsíur, t.d. með B fyrir blátt litsvið og V fyrir grænt (visual) litsvið. Litvísar í kerfinu fást með frádrætti B–V og gefa til kynna yfirborðshita stjarna. Í því kerfi, eins og í litrófi þeirra, kemur í ljós hærri yfirborðshiti 61A.